Fréttatilkynning, Helsinki 12.5.2022
Hjá finnska fyrirtækinu Moilo fylltist fólk áhyggjum vegna barna frá Úkraínu á flótta frá stríðinu og vildi leggja sitt af mörkum til þess að auðvelda þeim lífið í nýju landi svo gripið var til aðgerða. Fyrirtækið hefur með skömmum fyrirvara bætt úkraínsku við kennsluapp sitt sem byggist á því að hvetja börn til að læra tungumál í gegnum leik. Moka Mera Lingua byggist á skilningi og þekkingu á kennslufræði og hefur verið þróað í samstarfi við kennara og fræðimenn á því sviði.
Moka Mera Lingua er app sem ekki er þróað í ábataskyni en er ætlað til þess að kenna börnum tungumál um leik. Appið er sérstaklega ætlað börnum á aldrinum 3-8 ára og ekki er nauðsynlegt að barnið kunni að lesa. Í leikjaheimi Moka Mera læra börn með því að hlusta á tungumálið. Börnin fylgjast með tveimur persónum, hákarli og skrímsli, og geta leikið sér með hugsæi á ensku, þýsku, frönsku, spænsku, sænsku, norsku, íslensku, dönsku, finnsku, rússnesku, kínversku (mandarín), arabísku (levantín) og nú líka á úkraínsku.
Tungumálanám er lykillinn að tjáskiptum og gagnkvæmum skilningi einstaklinga og ólíkra menningarheima. Börn læra hratt ef þau fá tækifæri og það er ljóst að æskuárin eru afar mikilvægt málþroskatímabil. Hönnuðir og frumkvöðlar appsins, þær Petra Holm og Suzan Aledin, telja að gæða kennsluefni nýtist úkraínskum börnum til að aðlagast vist í gistilöndum sínum um Evrópu alla.
„Við vonum að Moka Mera Lingua nái til eins margra úkraínskra barna á víð og dreif um Evrópu og mögulegt er svo þau geti nýtt sér appið til þess að læra nýtt tungumál á fjörugan og skemmtilegan hátt,” segir Petra.
„Eitt fimm algildra mannréttinda barna er rétturinn til þess að leika sér. Leikurinn undirbýr þau fyrir framtíðina og er lykillinn að öllu námi. Moka Mera Lingua býður ungum börnum öruggt umhverfi til að kanna og læra á eðlilegan hátt. Þetta verður enn mikilvægara þegar barn býr við óöryggi vegna aðgerða fullorðinna sem þau bera enga ábyrgð á,“ bætir Suzan við.
Appið er ekki þróað í ábataskyni og starfið við það nýtur fjárhagslegs stuðnings ýmissa styrktaraðila. LEGO-sjóðurinn er einn helsti styrktaraðilinn og þar kom fram mikill áhugi á því að styðja við nám úkraínska barna með appinu og leikjum.
„Leikur er ein mikilvægasta aðferð barna til þess að öðlast nauðsynlega þekkingu og færni. Með námi í gegnum leiki færir Moka Mera börnum tæki sem þau geta nýtt til að þróa tungumálakunnáttu sína, sem er sérlega mikilvægt á þessum viðsjálverðu tímum. Við styðjum þetta framtak með miklu stolti og erum staðráðin í því að bregðast hratt við neyðarástandi í mannúðarmálum og tryggja að börnin gleymist ekki, “segir Oksana Roma, deildarstjóri Úkraínu hjá LEGO-sjóðnum.
Päivikki og Sakari Sohlberg stofnunin og Héléne och Walter Grönqvists Stiftelse sr. stofnunin hafa einnig báðar styrkt verkefnið um að bæta úkraínsku við appið.
Moka Mera Lingua appið er ókeypis og hægt er að sækja það í bæði App Store og Google Play.
Vinsamlegast leitið nánari upplýsinga eða sendið beiðnir um viðtöl til:
Moilo, Finnlandi
Petra Holm, Meðstofnandi, petra.holm@moilo.fi, Tel: +358 408442622
Suzan Aledin, Meðstofnandi, suzan.aledin@moilo.fi, Tel: +358 407104838
Um Moilo
Moilo er skapandi fyrirtæki með aðsetur í Helsinki í Finnlandi. Moilo hefur sett sér það markmið að efla þroska barna og skilningsnám þeirra á grundvelli háþróaðrar tækni í bland við norræn gildi. Fyrirtækið framleiðir hágæða, framsækið og frásagnardrifið efni fyrir börn á fjölbreyttum vettvöngum í samstarfi við háskóla, uppeldisfræðinga og börn. Moilo nýtir með öllu efni sínu aflið sem felst í því „að læra í gegnum leik”. Þessi hugmyndafræði er sótt í finnska menntakerfið ásamt því að hafa næmi gagnvart börnum og þörfum þeirra í fjölbreyttu samhengi.
Um LEGO-sjóðinn
LEGO-sjóðurinn stefnir að því að hvetja og móta byggingameistara morgundagsins, markmið sem það deilir með LEGO-samsteypunni. LEGO-sjóðurinn hefur einsett sér að byggja upp framtíð þar sem nám í gegnum leik gerir börnum kleift að verða skapandi og áhugasöm og halda áfram að læra alla ævi. Starfsemi sjóðsins snýst um það að skilgreina að nýju hvað leikur er og hvað það er að læra. LEGO-sjóðurinn stefnir að því, í samstarfi við leiðtoga með leiðandi sýn, áhrifafólk, kennara og foreldra, að útbúa, hvetja og virkja talsmenn þess að læra í gegnum leik. Kynntu þér málið betur á www.LEGOfoundation.com.