Helsinki 9. apríl 2022

Moilo, fyrirtæki með höfuðstöðvar í Helsinki sem sérhæfir sig í fræðsluefni fyrir börn, kynnir nú tungumála-smáforritið Moka Mera Lingua á þremur nýjum tungumálum; dönsku, íslensku og norsku. Smáforritið er nú í boði á tólf tungumálum. Það sameinar leik og nám fyrir börn á aldrinum 3-8 ára á skemmtilegan og fræðandi hátt í gegnum samskipti og leiki við sögupersónur appsins. Hákarlinn Atlas og litla skrímslið Moka Mera eru bestu vinir sem tala tvö ólík tungumál. Tungumálunum má breyta að vild eftir móðurmáli barnsins og því tungumáli sem það vill læra. Moka Mera Lingua inniheldur engan skrifaðan texta og því er ekki nauðsynlegt að búa yfir lestrarskilningi til að nota smáforritið.

Þökk sé styrk frá Nordplus var mögulegt að framkvæma uppfærsluna sem er samstarfsverkefni Aalborg University í Danmörku, Nord University í Noergi, Háskóla Íslands og Moilo í Finnlandi.

„Í gegnum þvernorræna samvinnu hefur verkefnið varpað ljósi á mikilvægi norrænu tungumálanna sem töluð eru af titölulega litlum hópi jarðarbúa, bæði með tilliti til einstaklinga og þjóðarsérstöðu,“ segir Helga D. Ísfold Sigurðardóttir frá Nord University í Noregi.

Eva Brooks frá Aalborg University bætir því við að Norðurlöndin aðhyllist að miklu leyti sameiginlega stefnu í uppeldisfræði og hönnun sem byggir á þátttöku og lýðræði.

„Með hliðsjón af þessum þáttum nýtur verkefnið enn meiri ávinnings af norrænu samstarfi, “ segir hún. Moka Mera Lingua veitir börnum á Norðurlöndum tækifæri til að læra ýmis ný tungumál og þjálfa orðaforða sinn á móðurmálinu.

„Þegar litið er til norskra tungumála-smáforrita er Moka Mera virkilega gott framlag þar sem áherslan á talað mál hentar markhópnum, sem eru börn, fullkomlega,“ segir Helga. „Smáforritið getur einnig skipt sköpum fyrir börn sem eru að læra norrænt tungumál, eins og börn flóttafólks. Ólíkt mörgum sambærilegum smáforritum á markaðnum er þetta smáforrit bæði ókeypis og algjörlega öruggt og þar af leiðandi líklegra til að koma að gagni.“

Smáforritið var gefið út í febrúar 2020 og var upphaflega fjármagnað af Menningarsjóði Svíþjóðar (e. Swedish Cultural Foundation) og Brita Maria Renlund Foundation í Finnlandi. Tungumál í boði í smáforritinu eru: arabíska (Levantín), kínverska (Mandarín), danska, enska, finnska, franska, þýska, íslenska, norska, rússneska, spænska og sænska. Goethe Institut í Finnlandi og sendiráð Þýskalands í Finnlandi fjármögnuðu uppfærslu á þýskri tungu árið 2021. Unnið er að uppfærslu á úkraínsku sem verður í boði í smáforritinu innan skamms.

Skúlína Hlíf Kjartansdóttir frá Háskóla Íslands hefur miklar væntingar til notagildis appsins fyrir ung börn og þá sérstaklega tví- eða fjöltyngda nemendur og börn með íslensku sem annað tungumál.

„Það er mín von að við getum rannsakað samskipti ungra barna þvert á tungumál í sameiningu og skoðað hvaða hlutverk Moka Mera getur haft í því samhengi. Ég hef mikinn áhuga á að fylgjast með því hvernig nám í gegnum leik getur stuðlað að auknum orðaforða og hjálpað nemendum að takast á við nýtt tungumál.“

Brooks er sammála þessu og vill leggja áherslu á samspil leiks og náms frá sjónarhóli barna.

„Oftar en ekki taka rannsóknir á þessu sviði frekar mið af sjónarhorni fullorðinna. Með því að greina þessa þætti út frá sjónarhóli barnanna getum við vonandi öðlast betri skilning á því hvernig samspil þessara tveggja þátta getur stuðlað að leikmiðuðu námi barna þar sem leikurinn er í forgrunni,“ segir Brooks að lokum.

Um Moka Mera Lingua

Moka Mera Lingua er hannað með öryggi barna í huga og er ókeypis. Smáforritið safnar engum gögnum og inniheldur hvorki auglýsingar né ytri tengla og ekki er hægt að gera kaup í gegnum það. Eftir að smáforritið hefur verið sótt krefst það ekki nettengingar. Hægt er að nota það bæði á snjallsímum og spjaldtölvum með iOS og Android stýrikerfum. Appið er mikið notað á leikskólum vítt og breitt um Finnland sem og af foreldrum og börnum heima við.

Rannsóknir á virku tvítyngi í námi barna hafa leitt kosti þess greinilega í ljós. Þær sýna að nám erlends tungumáls snemma á lífsleiðinni stuðli að lausnamiðaðri og gagnrýninni hugsun ásamt því að bæta einbeitingu, hlustunarskilning og minni. Börn eru fljótari og eiga auðveldara með að læra tungumál heldur en fullorðnir. Börn sem hafa lært annað tungumál á unga aldri sýna jafnvel merki um meiri sköpunargáfu og sveigjanleika í hugsun; þeim gengur betur í skrift ásamt því að búa yfir betri lestrar- og talningarfærni.

Fyrir frekari upplýsingar og viðtalsbeiðnir, hafið samband við:

Petra Holm, Meðstofnandi, petra.holm@moilo.fi , Tel: +358408442622

Suzan Aledin, Meðstofnandi, suzan.aledin@moilo.fi , Tel: +358407104838